15 yfirmenn mega ganga í störf verkamannanna

01.03.2016 - 20:48
Mynd með færslu
 Mynd: Hallgrímur Indriðason  -  RÚV
Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu hefur sett lögbann á hluta aðgerða Verkalýðsfélagsins Hlífar við álverið í Straumsvík, þar sem verkfallsverðir hafa aftrað stjórnendum frá því að skipa út áli.

Vinnustöðvun er í gildi í Straumsvík sem tekur til útskipunar áls. Verkalýðsfélagið taldi að aðeins þrír yfirmenn mættu lesta flutningaskip í höfninni í stað hafnarverkamannanna sem taka þátt í vinnustöðvuninni. Þetta væru verkstjórinn í höfninni, framkvæmdastjóri fjármálasviðs, sem er yfirmaður verkstjórans, og forstjóri fyrirtækisins, Rannveig Rist.

Stjórnendur álversins töldu að 34 yfirmönnum til viðbótar væri heimilt að lesta skipið og fóru fram á lögbann á aðgerðir verkfallsvarða. Í kvöld komst sýslumaður að þeirri niðurstöðu að tólf yfirmenn, til viðbótar þeim þremur sem verkalýðsfélagið hafði fallist á, mættu taka þátt í útskipun. Lögbann var því lagt við að verkfallsverðir hindruðu vinnu þeirra. 

Alls mega því 15 yfirmenn ganga í störf hafnarverkamannanna, samkvæmt niðurstöðu sýslumanns: forstjóri, sex framkvæmdastjórar, tveir staðgenglar framkvæmdastjóra, verkstjóri og fimm stjórnarmenn fyrirtækisins.

Í stjórninni sitja Katrín Pétursdóttir, forstjóri Lýsis, Þórður Reynisson, lögfræðingur í atvinnuvegaráðuneytinu, og útlendingarnir Alain Crapart, Sonia Lacombe og Jean-Francois Malleville.

Tryggvi Aðalbjörnsson
Fréttastofa RÚV