140 féllu í Líbíu

20.05.2017 - 02:53
epa04665320 Fighters loyal to Libya's parliament General National Congress (GNC) prepare to launch attacks as they continue to fight Islamic State (IS) on the outskirts city of Sirte, Libya, 16 March  2015. According to reports, pro-government
Róstusamt hefur verið í Líbíu allar götur síðan borgarastyrjöld braust þar út og Gaddafi Líbíuforseta var steypt af stóli með hjálp Nató-herja árið 2011  Mynd: EPA
Minnst 140 féllu í árás á bækistöð vopnaðra sveita stjórnarandstæðinga í Líbíu á fimmtudag. Flestir hinna látnu eru hermenn úr sveitum Khalifa Haftar, marskálks, sem er andsnúinn stjórninni í Trípólí, en nokkur fjöldi óbreyttra borgara mun einnig vera á meðal hinna föllnu. Árásin var gerð af vopnuðum sveitum sem hliðhollar eru Trípólístjórninni.

Talsmenn Trípólístjórnarinnar, sem nýtur velvildar Sameinuðu þjóðanna, hafa fordæmt árásina harðlega og varnarmálaráðherra stjórnarinnar hefur tekið pokann sinn. Í tilkynningu frá forsætisráðuneytinu í Trípólí er þvertekið fyrir að stjórnin hafi mælt fyrir um árásina.

Khalifa Haftar er einn margra stríðsherra í landinu, sem setur sig upp á móti stjórninni í Trípólí. Hann ræður stórum svæðum í austurhluta landsins og er umdeildur mjög. Sjálfur lýsir hann sér sem bjargvætti líbísku þjóðarinnar en andstæðingar hans saka hann um að eiga sér aðeins eitt markmið: Að ná völdum í Líbíu og koma á herforingjastjórn með sjálfan sig í hlutverki hins allsráðandi leiðtoga.

Erindreki Sameinuðu þjóðanna í Líbíu, Martin Kobler, fordæmir árásina harðlega, einkum og sér í lagi vegna þess hve margir óbreyttir borgarar hafi verið á meðal fallinna. Herbækistöðin, þar sem meðal annars er að finna flugvöll, kallast Brak al-Shati. 
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV