14 fórust í rútuslysi

16.07.2017 - 03:49
Mynd með færslu
La Maná í Ekvador  Mynd: Danny LM  -  Wikimedia Commons
Fjórtán dóu og þrjátíu slösuðust, þar af einn lífshættulega, þegar rúta fór út af vegi í Ekvador í gær, valt og varð loks eldi að bráð. Slysið varð á þjóðveginum milli höfuðborgarinnar Quito og borgarinnar La Maná í fjallahéruðum Ekvadors. Þau sem lifðu voru flutt á sjúkrahús með hraði. Helmingurinn fékk að fara heim að lokinni skoðun en hinn helmingurinn þurfti frekari aðhlynningu og einn var lagður á gjörgæslu.

Pablo Calle, forstjóri Samgöngustofu þeirra Ekvadormanna, sagði rútufyrirtækið hafa verið svipt rekstrarleyfi skömmu eftir slysið, þegar í ljós kom að rútan var ekki með skoðun, hefði augljóslega ekki fengið nauðsynlegt viðhald og „hefði aldrei átt að vera á ferðinni á ekvadorskum vegum.“  Lenín Moreno, forseti Ekvadors, sendi fjölskyldum fórnarlambanna samúðarkveðjur á Twitter. 
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV