14 Albanar sótt um hæli það sem af er ári

21.01.2016 - 16:28
Erlent · Innlent · Evrópa
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink RÚV  -  RÚV Anton Brink
36 manns hafa sótt um hæli hér á landi þegar tæpur mánðuður er liðinn af árinu, þar af eru 14 Albanar og átta Sýrlendingar. Albanar voru fjölmennastir þeirra sem sóttu um hæli hér í fyrra, eða þriðjungur allra umsækjenda og var þeim öllum synjað.

Útlendingastofnun birtir í dag samantekt um hælisumsóknir fólks frá Albaníu vegna hins mikla fjölda þeirra og ítarlegrar fjölmiðlaumfjöllunar um mál þeirra. Kemur þar fram að í aðildarríkjum Evrópusambandsins hafi umsóknum Albana nær alltaf verið hafnað í fyrra eða í 98% tilfella. Albanía sé friðsælt lýðræðisríki þar sem hvorki ríki stríðsástand né ógnarstjórn. Stór hluti umsóknanna sem hingað berist sé tilhæfulaus. Sérstaklega er til þess tekið að hægt sé að veita fólki dvalarleyfi af mannúðarástæðum vegna heilbrigðisástæðna ef ekki er hægt að fá viðeigandi þjónustu i heimalandi. Hins vegar séu sjúkratryggingar lögbundnar í Albaníu, heilbrigðisþjónusta við börn sé foreldrum að kostnaðarlausu og lyf séu þar niðurgreidd. Allt bendi til þess að heilbrigðisþjónusta sé fullnægjandi í landinu.