11 utanríkisráðherrar hittast í Hörpu á morgun

19.06.2017 - 12:33
Mynd með færslu
 Mynd: cbss.org
Utanríkisráðherrar Þýskalands, Póllands, Svíþjóðar, Danmerkur, Noregs, Eistlands, Lettlands og Íslands auk varautanríkisráðherra Rússlands, Litháens og Finnlands koma saman í Hörpu á morgun til að ræða samstarf innan Eystrasaltsráðsins. Fundurinn er merkilegur því sambúð ríkjanna hefur verið stirð frá því Rússar innlimuðu Krímskaga fyrir fjórum árum.

Ísland hefur farið með formennsku í Eystrasaltsráðinu síðasta árið en á þeim vettvangi er rætt um víðtækt samstarf, til að mynda um menntun, menningu, jafnrétti, lýðræði, málefni flóttamanna, landamæra, réttindi barna, mansal og svo framvegis. Leiðtogar ríkjanna hafa hins vegar ekki hist undanfarin fjögur ár vegna ástandsins í Úkraínu. Guðmundur Árni Stefánsson, sendiherra, hefur stýrt formennsku Íslands í Eystrasaltsráðinu: „Okkur Íslendingum, í okkar formennsku, fannst mikilvægt að endurvekja samtal á pólitískum vettvangi til að ræða öll þau mál sem eru undir í þessu samstarfi sem er mjög víðtækt. Og einnig að gefa ráðherrum kost á að ræða opið um önnur tengd mál eins og öryggis- og varnarmál og ég vænti þess að það verði gert.“

Ekki vildu öll ríkin boða til fundarins

Von er á ýmist utanríkisráðherrum, eða varautanríkisráðherrum, frá öllum Norðurlöndunum, Eystrasaltsríkjunum, Rússlandi, Póllandi og Þýskalandi auk erindreka Evrópusambandsins. Reiknað er með að þeir samþykki Reykjavíkurályktun sem leggi línurnar fyrir samstarf innan Eystrasaltsráðsins næsta áratuginn. Guðmundur Árni segir að sambúð sumra ríkjanna hafi verið stirð undanfarið og því sé mikilvægt að ráðherrarnir eigi samtal: „Við lögðum upp þessa línu þegar við tókum við formennsku fyrir tæpu ári síðan og höfum verið að nuddast í þessu síðan. Það var ekki algjört samkomulag allra ríkja í byrjun um að efna til fundarins og fyrirstaða hjá einstaka ríkjum. Þetta samstarf byggir á því að öll ríkin séu sammála um þau skref sem tekin eru.“

Stuttur og snarpur fundur en tækifæri til tvíhliða viðræðna

Í ár eru 25 ár frá því Eystrasaltsráðið var stofnað. Guðmundur Árni vonast eftir nýju upphafi á morgun þar sem ráðherrarnir fá tækifæri til að eiga tvíhliða fundi og ræða saman: „Prógrammið er mjög stutt, byrjar í Hörpu klukkan fjögur og er meira og minna búið klukkan sjö. Þá hittast ráðherrarnir í óformlegum kvöldverði þar sem þeir eru nánast einir, plús einn aðstoðarmaður. Þar hafa þeir tækifæri til mikillar nándar og dagskrá þess fundar er algjörlega opin, þar geta þeir rætt hvað sem er.“

 

Þeir sem mæta til fundarins eru:

Danmörk: Anders Samuelsen utanríkisráðherra
Eistland: Sven Mikser utanríkisráðherra
Evrópusambandið: Thomas Mayr-Harting, yfirmaður Evrópu og Mið-Asíumála hjá EEAS
Finnland: Anne Sipiläinen, Under-secretary of State, Foreign and Security policy
Ísland: Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra
Lettland: Edgars Rinkçviès utanríkisráðherra
Litháen: Neris Germanas, varautanríkisráðherra
Noregur: Børge Brende utanríkisráðherra
Pólland: Witold Waszczykowski utanríkisráðherra
Rússland: Vladimir Gennadievich Titov, varautanríkisráðherra
Svíþjóð: Margot Wallström utanríkisráðherra
Þýskaland: Sigmar Gabriel utanríkisráðherra

 

 

 

 

Heiðar Örn Sigurfinnsson
Fréttastofa RÚV