1% Jarðarbúa á meira en hin 99% til samans

18.01.2016 - 03:23
epa04913967 A picture made available on 05 September 2015 shows the 140-metre three-mast sailing yacht White Pearl in the German Naval Yards shipyards in Kiel, Germany, 02 September 2015. After more than three years, the ship should go for its first trial
Hvíta perlan, ein stærsta snekkja heims, er teiknuð af stjörnuarkitektinum Philippe Starck fyrir rússneska auðkýfinginn Andrey Igorevich Melnichenko, kostaði 73 milljarða króna fullbúin.  Mynd: EPA  -  DPA
62 ríkustu manneskjur heims eiga jafn mikinn auð og fátækari helmingur alls mannkyns til samans, og auðævi ríkasta hundraðshluta Jarðarbúa eru nú orðin meiri en sem nemur samanlögðum eignum hinna 99 prósentanna. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu mannúðarsamtakanna Oxfam, sem byggir á tölum frá Credit Suisse og Forbes og verður kynnt á heimsviðskiptaráðstefnunni í Davos í Sviss sem hefst á miðvikudag. Oxfam hvetja ríki heims til að bregðast hart við þessum vaxandi ójöfnuði og snúa þróuninni við.

Samtökin gagnrýna ófyrirleitna hagsmunagæslu iðnaðar- og viðskiptalífsins, þau áhrif sem stjórnvöld um veröld víða leyfa þeim að hafa á stefnu sína og störf, og segja það forgangsatriði að uppræta skattaskjól heimsins. Skattaundanskot ríkisbubba og stórfyrirtækja bitni harkalega á almenningi, einkum þeim sem minnst mega sín.

Óásættanleg að hundruð milljóna svelti 

Í ávarpi sem Winnie Byanyima, framkvæmdastjóra Oxfam á heimsvísu, mun flytja á heimsviðskiptaráðstefnunni, segir hún algjörlega óásættanlegt að hundruð milljóna manna svelti heilu hungri á meðan örfáir aðilar sópi að sér auðlindum sem nýta mætti þeim til bjargar.

Burt með skattaskjólin

Skorar hún á stjórnmálamennina, viðskiptajöfrana og annað áhrifafólk sem hittist í Davos, að sjá til þess að skattaskjól heyri brátt sögunni til. „Alþjóðafyrirtæki og moldríkir forréttindahópar virðist lúta öðrum lögum en allur almenningur og komist upp með að neita að borga þá skatta sem samfélögin þurfi sárlega á að halda til að virka sem skyldi,“ sagði Byanyima. „Sú staðreynd að 188 af 200 stærstu fyrirtækjum heims væru með starfsemi í minnst einu skattaskjóli sýndi að taka þyrfti á þessum vanda og það fyrr en síðar.“ 

Hraðari auðsöfnun hinna ríkustu - vaxandi ójöfnuður

Samtökin spáðu því á Davos-ráðstefnunni í fyrra, að auðævi ríkasta prósentsins yrðu orðin meiri en hinna 99 prósentanna árið 2017, en raunin varð önnur: Sjóðir hinna ríku gildnuðu hraðar en spáð var á meðan sjóðir hinna rýrnuðu. Eignir fátækari helmingsins hafa minnkað um sem nemur 130 billjónir króna frá 2010, eða um 41%, og þó hefur mannfólkinu fjölgað um 400 milljónir í millitíðinni. Á sama tíma hafa sjóðir 62 ríkustu manneskja heims vaxið um 65 billjónir króna.

Ef útrýma á fátækt þarf að innheimta skatta

Ríki heims tóku höndum saman í fyrra og lýstu því yfir að útrýma skyldi fátækt í heiminum fyrir árið 2030. Oxfam bendir á að lítið bóli á efndum þessara fögru fyrirheita. Þróunin sé enn í öfuga átt - hinir ríku verði æ ríkari og hinir fátæku fátækari. Oxfam bendir á að réttmæt innheimta skatta af auðkýfingum og risafyrirtækjum sé mikilvæg forsenda þess að þetta göfuga markmið náist.

Bæta þarf almannaþjónustu og útrýma launamun kynja

Aðgerðir gegn skattskjólum eiga að mati Oxfam að vera einn liður í þríþættu átaki gegn ójöfnuði í heiminum. Um leið og unnið sé að því að endurheimta allar þær billjónir sem forðað hefur verið í skattaskjólin þurfi stjórnvöld í ríkjum heims að fjárfesta í heilsugæslu, skólum og annarri mikilvægri almannaþjónustu, sem komi öllum til góða og ekki síst þeim fátækustu.

Þá þurfi stjórnvöld einnig að sjá til þess að allir fái sómasamlega greitt fyrir sína vinnu, jafnt fólkið á gólfinu sem topparnir. Kallað er eftir reglum um lágmarkslaun sem dugi fyrir framfærslu, og aðgerðum gegn launamun kynjanna, sem er enn allt of mikill samkvæmt fyrirliggjandi tölum. 

Sjúkt efnahagskerfi

„Þau ríkustu geta ekki lengur látið sem auðsöfnun þeirra gagnist öllum,“ segir Byanyima, „yfirgengileg auðævi þeirra sýna í raun að efnahagskerfi heimsins er sjúkt. Sú sprenging sem orðið hefur í auðsöfnun hinna ofurríku upp á síðkastið er á kostnað meirihluta mannkyns, og alveg sérstaklega þeirra fátækustu.“

Það eru engar ýkjur þegar Byanyima talar um sprengingu í auðsöfnun, því auðurinn safnast hratt á æ færri hendur hinna allra ríkustu. 2010 áttu 388 ríkustu manneskjur heims jafn mikinn auð og fátækari helmingur mannkyns. 2011 þurfti ríflega helmingi færri - en þeim mun ríkari - auðkýfinga til að standa fátækari helmingi mannkyns á sporði, eða 177. 2012 voru þeir 159 og 2013 fóru þeir í fyrsta skipti niður fyrir 100, voru aðeins 92. 2014 voru þeir 80 og í fyrra þurfti aðeins 62, sem fyrr segir. Af þessum 62 ríkustu manneskjum heims eru 53 karlar og 9 konur.

Þau ríkustu líklega enn ríkari

Sá fyrirvari er hafður á niðurstöðum skýrslunnar, að nákvæmar upplýsingar um eignir hinna allra ríkustu séu vandfengnar. Credit Suisse segir að reikna megi með að auðævi ríkustu 10 prósentanna og allra ríkasta prósentsins séu frekar meiri en áætlað er en minni. Þar sem skýrslan tekur til heimsbyggðarinnar allrar eru einnig inni í henni áætlaðar tölur um tekjur og eignir í ýmsum ríkjum, þar sem áreiðanlegar tölfræðiupplýsingar er ekki að fá.

Vestrænt - og þar með íslenskt - millistéttarfólk á besta aldri, sem ekki hefur skuld- og veðsett sig upp fyrir haus, tilheyrir að stórum hluta ríkustu 10 prósentunum. Til að falla í þann flokk þarf einstaklingur að eiga fé, laust eða fast, sem nemur tæpum 9 milljónum króna. Til að falla í hóp eina prósentsins þarf einstaklingur að eiga skuldlausar eignir og/eða lausafé upp á nokkurn veginn 100 milljónir króna.

Lesa má meira um skýrslu Oxfam á heimasíðu samtakanna og þar má einnig nálgast skýrsluna sjálfa.

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV