„Óverjanleg“ áhætta án sérstakra aðgerða  • Prenta
  • Senda frétt

Það er ekki hægt að losa fjármagnshöftin án þess að taka óverjanlega áhættu með efnahagslegan og fjármálalegan stöðugleika nema ráðist verði í sérstakar aðgerðir til að leysa greiðslujafnaðarvanda þjóðarbúsins, segir Már Guðmundsson seðlabankastjóri.

Orð Más birtast í formála að riti Seðlabankans um fjármálastöðugleika sem gefið var út í dag.

Miklar afborganir fimm ár í röð
Már segir vandann þríþættan. Afborgunarbyrði erlendra lána sé þung í ár og næstu fjögur ár og umfram horfur um viðskiptaafgang. Þá hafi innlendir aðilar, aðrir en ríkið og Seðlabankinn, enn takmarkaðan aðgang að lánamörkuðum og lok gæti uppgjör föllnu bankanna bætt verulega við kvikar krónueignir í höndum útlendinga. Enginn afgangur sé af gjaldeyristekjum þjóðarbúsins til að leysa út slíkar krónutölur. „Þá er útlit fyrir að endurfjármögnun eða erlend eignasala muni fjármagna hluta afborgana á næstu árum, einkum á árinu 2015. Að lokum eru nú vísbendingar um að aðgangur nýju bankanna að erlendri lánsfjármögnun sé að batna."

Góður gangur síðustu misseri
Seðlabankastjóri segir í inngangi sínum að nokkuð vel hafi gengið í efnahagslífi Íslendinga undanfarin misseri. Hagvöxtur hafi verið góður á síðasta misseri og byggst að mestu á auknum útflutningi vöru og þjónustu en innlend eftirspurn hafi staðið í stað, því hafi þjóðhagslegur sparnaður og afgangur á viðskiptajöfnuði aukist. Að auki hafi laun hækkað og kaupmáttur aukist þannig að heimili geti betur staðið undir skuldum en áður.

Staða bankanna ekki jafn góð og sýnist
Þó sé staða bankanna ekki eins góð og virðist við fyrstu sinn án þess þó að það gefi „tilefni til að hafa stórar áhyggjur". Þarna spilar inn í að erlend lausafjárstaða bankanna versni verulega að óbreyttu ef skilmálum á skuld nýja Landsbankans við þann gamla verði ekki breytt eða eðlilegur aðgangur bankans að erlendu lánsfé opnist áður en að greiðslum kemur. „Önnur ástæða er sú að hluti afkomunnar byggist á virðishækkun útlána og fleiri óreglulegum þáttum. Sé leiðrétt fyrir því og litið til svokallaðs grunnrekstrar er arðsemi heildareigna lakari. Hún er þó enn lítillega yfir því sem almennt á við um aðra norræna banka. Þá er enn óvenjumikil óvissa um virði útlána."

Gæti dregið úr sparnaði og viðskiptaafgangur snúist í halla
Efnahagsþróun næstu missera grefur ekki undan fjármálastöðugleika ef spár ganga eftir. Þriggja prósenta hagvöxtur í ár og næstu tvö ár geti þó orðið til þess að slakinn í hagkerfinu hverfi og spenna myndist í þjóðarbúskapnum í kringum áramót. „Það kallar á hagstjórnarviðbrögð til þess að varðveita efnahagslegan stöðugleika. Stöðugleiki fjármálakerfisins þarf þó ekki að vera í hættu svo lengi sem hagstjórn er öguð og væntingar heimila og fyrirtækja verða ekki of óraunsæjar," segir seðlabankastjóri en bætir við að reynslan sýni að það geti brugðið til beggja vona. „Ef illa fer gæti farið af stað atburðarrás sem hefði neikvæðar afleiðingar i för með sér fyrir fjármálalegan stöðugleika. Í þessu samhengi er það áhyggjuefni að samkvæmt spá Seðlabankans mun innlend eftirspurn aukast verulega umfram hagvöxt á næstu árum. Þjóðhagslegur sparnaður mun því minnka á ný og viðskiptaafgangur snúast í halla."

brynjolfur@ruv.is

Ertu með athugasemd vegna fréttarinnar? Sendu á frettir@ruv.is

Tilkynna um bilaða upptöku